Pages

Thursday, November 14, 2013

Hrökkbrauð for dummies

Já hér er enn ein uppskriftin handa ykkur kæru lesendur, þið verðið bara að stoppa mig af ef þið eruð orðin leið á þeim! Þessa hrökkbrauðsuppskrift fékk ég í fjölskylduboði fyrr í vetur og baka það orðið nánast í hverri viku. Uppskriftin er sáraeinföld og hrökkbrauðið er ótrúlega gott, ég borða það vanalega bara eitt og sér en það skemmir ekki fyrir að setja eitthvað á það. 

Í uppskriftina þarf eftirfarandi:

1 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
1 dl hörfræ
1 dl sesamfræ
1 dl gróft haframjöl
3 og 1/2 dl spelthveiti
1 og 1/4 dl olía (ég nota extra virgin ólífuolíu)
2 dl vatn
2 tsk salt




Ágætt er að byrja á því að blanda þurrefnunum létt saman í skál. Á myndina vantar þó saltið en það er bara vegna þess að ég nennti ekki að þrífa það líka af eldhúsbekknum eftir þessa ágætu myndatöku.


Svona líta þurrefnin svo út blönduð saman fyrir þá sem voru að velta því fyrir sér. Restinni af hráefnunum er svo skellt útí skálina og öllu blandað saman með sleif. ATH. Ég set aldrei allt vatnið sem segir til um í uppskriftinni því deigið má alls ekki vera of blautt. Best er að byrja á 1 dl vatni og bæta svo meiru við ef þess þarf.


Deiginu er svo skipt nokkurnvegin í helminga og sett á sitthvora bökunarplötuna.


Síðan er bökunarpappír skellt yfir deigið og það flatt út með kökukefli þar til það er orðið örþunnt. Ég kaus að nota þessa flösku frekar við aðgerðirnar enda talsvert vanari að meðhöndla vodkaflöskur en kökukefli. 


Best er svo að skera deigið í bita áður en það er bakað, það er þó líka hægt að brjóta það niður í bita eftir bökun. Plötunum er svo skellt inn í 200 gráðu heitan ofn, 180 fyrir blástursofna, í 10-15 mínútur eða þar til hrökkbrauðið er orðið stökkt. 


Ótrúlega einfalt og fljótlegt eins og þið sjáið og ekki skemmir fyrir hvað þetta er hollt. Fyrir þá sem vilja þá er líka gott að skella smá sjávarsalti yfir áður en deigið fer inní ofn eða þá að setja smá rifinn mozarellaost yfir um leið og hrökkbrauðið er komið úr ofninum. Nammi!











No comments:

Post a Comment