Pages

Sunday, February 8, 2015

Form límmiðar

Í sumar varð ég svo lukkuleg að vinna mér inn vegglímmiða að eigin vali í leik á vegum Form límmiða og króm.is. Form límmiðar bjóða uppá mikið úrval vegglímmiða í hinum ýmsu stærðum og formum. Ég valdi mér þríhyrninga og fékk sent spjald með 45 slíkum en var þó í mesta basli með að finna þessu góðan stað.
Nýlega flutti ég svo í leiguíbúð og fannst tilvalið að henda nokkrum þríhyrningum upp á vegginn milli eldhússkápanna og bekksins. 


Ég var lítið búin að spá í því hvernig ég ætlaði að raða þessu, ákvað bara að byrja og vinna mig út frá fyrsta þríhyrningnum. Ég er allavega mjög ánægð með útkomuna og finnst þetta snilldarlausn fyrir þá sem eru í leiguhúsnæði og vilja gera heimilið meira að sínu. 
Næst á dagskrá er svo að panta dropalímmiða og skella upp í þvottahúsinu. Þið fáið að sjálfsögðu að fylgjast með því!


HÉR finnið þið facebook síðu Form límmiða.


Friday, January 30, 2015

Flutningar


Eins og ég nefndi í síðustu færslu þá eiga flutningar hug minn allan þessa dagana.
Ég nota að sjálfsögðu flutningana sem afsökun til þess að kaupa mér fallegt góss enda jafn nauðsynlegt í mínum huga að eiga fallega muni og að eiga salt í grautinn. Það fyrrnefnda er jafnvel aðeins mikilvægara.

Ég splæsti því í þetta fallega ljós frá Snúrunni og setti það að sjálfsögðu strax í sambandi. Það fær að hvíla þarna í gluggakistunni meðan ég bíð eftir restinni af húsgögnunum.
HÉR má finna ljósið góða fyrir áhugasama og ekki skemmir fyrir að það er á tilboði!
Ég leyfi ykkur svo vitaskuld að fylgjast með þróun mála í flutningunum, bæði í máli og myndum.

Þar til næst!

Kristveig Lilja

Wednesday, January 28, 2015

Ebay rúnturinn

Ali Express æði Íslendinga hefur sennilega farið framhjá fáum og maður telst sennilega ekki maður með mönnum nema eiga allavega eitt par af Nike Free eftirlíkingu og ónotaða flík inní skáp sem passar ekki á neinn sem þú þekkir vegna þess að engum datt í hug að asískar stærðir væru frábrugðnar þeim evrópsku. Ég telst því sennilega ekki sem alvöru Íslendingur því ég luma á hvorugu. 
Ég er blessunarlega séð laus við Ali heilkennið og held mig við gamla góða Ebay-ið. Dæmi nú hver fyrir sig hvort sé skárra, enda báðar síður augljóslega jafn hættulegar þegar forfallnir kaupfíklar eiga í hlut. Þessi kaupalki velur þó Ebay af augljósustu ástæðunni: Það er ekki mönnum bjóðandi að bíða í meira en mánuð eftir netkaupum. Nei ég læt sko ekki bjóða mér slíka vitleysu.

Þessa dagana stend ég í flutingum og Ebay því heimsótt allavega 5 sinnum á sólarhring í leit að góssi og gersemum sem geta gert íbúðina mannsæmandi. Ég hef rekist á allnokkra fallega hluti sem ég ákvað að deila með ykkur. Eflaust eru einhverjir fleiri fagurkerar hér í leit að fallegum hlutum til að fegra heimilið og ekki skemmir fyrir ef þeir eru á góðum prís.



Hér má sjá fallega mottu á fantagóðum prís. 30 dollarar, frí sending og málið er steindautt. Ef hún væri til í stærri stærð væri hún hiklaust á leiðinni til mín í þessum töluðu.

Marmaraæðið virðist engann enda ætla að taka og finnst mér það ekki skrýtið enda tímalaust og fallegt mynstur. Þennan kertastjaka má finna á Ebay-inu góða en svipaðir stjakar fást í bæði Epal og Hrím og koma frá Ferm Living.


Á Ebay er allt morandi í alskyns landa- og heimskortum. Þetta hér fæst í hinum ýmsu stærðum og mætti vel flytja heim til mín.


Að sjálfsögðu er svo hægt að næla sér í eftirlíkingu af hinum geysivinsæla Kartell lampa. Eitt stykki ekta kostar hálfan búk en eftirlíkingin er á talsvert meira mannsæmandi verði eða 80 dollara.



Falleg koparklukka væri ekki amarlegt stofustáss. Þessi elska er föl fyrir rúma 16 dollara.


Falleg púðaver í ýmsum stærðum og gerðum. Mér finnst geometrísk mynstur einstaklega falleg og geta lífað upp á annars líflausa sófa.


Þessar hillur kosta nú sitt en fallegar eru þær svo þær fá að fljóta hér með. Svipaðar hillur fást frá danska merkinu Bloomingville.


Mikið úrval er af gamaldags og fallegum skiltum á spottprís.


Ég leyfi svo þessum gullfallega koparhnetti að fylgja í restina. Hann er full dýr fyrir minn smekk, 140 dollarar að undanskildum sendingarkostnaði, en það kostar ekkert að láta sig dreyma.



Kristveig Lilja






Tuesday, May 27, 2014

Myndasögur #5

Þessa dagana er hversdagsmyndaleikurinn að tröllríða öllu á facebook. Það hlaut að koma að því að einhver skoraði á mig en þar sem mér finnst þetta orðin fremur þreyttur leikur þá ætla ég að sleppa honum. Í staðin fáið þið nokkrar myndir hér frá síðustu dögum og vikum í mínu lífi. Bæði hversdags og ekki.


Við feðgin skelltum okkur í göngutúr upp að Helgustaðanámu seinnipartinn í dag í blíðunni.



Ég sá ægilega sniðugt myndband á instagram um daginn sem sýndi, að því er virtist, mjög auðvelt trix til að lakka neglurnar á flottan hátt. Þetta var asentonað af nöglunum strax eftir myndatökuna. 
Einfalt mæ ass.


Þetta gerðist um daginn. Nú er betra að fara að vara sig á því hvað fer í history.


Ég skellti mér á Eurovision um daginn. Áfram Ísland!


Skoðanir fólks á sigurlaginu eru jafn misjafnar og þær eru margar. Ég var þó ánægð með sigurinn enda bæði lagið og söngkonan flott. Burtu með fordóma!


Ég gerði alveg svolítið af því að naglalakka mig í maímánuði.


Það er ekki tekið út með sældinni að vinna í álveri yfir sumarmánuðina. Mælirinn sýndi 27 gráður síðustu helgi. Þetta verður sveitt sumar. 


Að lokum er hér mynd af nýlegum kaupum. Augnskuggar og sumarlegur kimonojakki. Ekki skemmdi fyrir að þetta var sá síðasti í búðinni og fékkst því á gjafaprís.

Fyrir áhugasama má finna mig á Instagram undir @kristveiglilja. 
Þar kennir ýmissa grasa en þar má meðal annars finna mikið af naglalakks og eurovision myndum. Fyrir þá sem hafa gaman af svoleiðis fíflaskap er um að gera að ýta á follow.







Tuesday, May 13, 2014

Kjúklinganúðlur á kínverska vísu

Ég held ég verði seint titlaður einhver meistarakokkur, allavega ekki miðað við tilþrif mín í eldhúsinu. Ég er einnig mjög hugmyndasnauð þegar kemur að því að ákveða hvað skal hafa í matinn svo ég er með svona 5 uppskriftir sem ég skiptist bara á að elda. 
Ein þeirra er uppskrift af eggjanúðlum með kjúkling, dásamlega góður réttur sem hefur aldrei klikkað! Ég ætla að gefa ykkur uppskriftina og vona að ykkur líki vel.

Í uppskriftina þarf eftirfarandi hráefni:

3 kjúklingabringur
1 pakka eggjanúðlur
1 papriku
1 lauk
1 box af sveppum
Ostrusósu
Soyasósu
Púðursykur


Ég er mikill dassari þegar kemur að því að elda svo ekki láta ykkur bregða ef orðunum dass og slurk mun bregða fyrir í færslunni.


Byrjað er á því að henda kjúklingabringunum inn í ofn eða steikja þær á pönnu, það fer allt eftir hentisemi. Best er að krydda þær örlítið með kjúklingakryddi eða salti og pipar. 
Á meðan bringurnar malla eru núðlurnar soðnar eftir leiðbeiningum á pakka og niðurskorið grænmetið steikt á pönnu við vægan hita.
Á þessu stigi málsins reynir á multitaskarann í mönnum. 


Þegar núðlurnar eru soðnar er vatninu hellt af þeim og þeim blandað saman við grænmetið og því næst er niðurskornum kjúklingabringunum bætt við blönduna. 
Þá er komið að dassinu.


Í "sósuna" þarf ostrusósu, soyasósu og púðursykur. Ég hef aldrei notað neinar mælieiningar við sósugerðina í þessari uppskrift og er nánast sannfærð um það að betra sé að dassa hana til svo hún verði fullkominn.
Ég set um það bil hálfa flösku af ostrusósu, jafnvel aðeins meira, góðan slurk af soya sósu, ætli það séu ekki um það bil 1-2 matskeiðar. Því næst er góðum slatta af púðursykri hellt yfir, um það bil hálfum desilítra.
Þessu er svo blandað vel saman og smakkað til. Ekki hika við að setja minna af hráefnunum og bæta svo bara við ef ykkur finnst eitthvað vanta uppá.


Það hljómar kannski ekki vel að blanda saman púðursykri og soyasósu og hella því yfir kjúkling og núðlur en treystið mér, þetta er með því betra sem ég hef smakkað.

Skora á ykkur að prufa þennan rétt, það verður enginn svikinn!






Thursday, May 1, 2014

Instagrammari ársins

Í gærkvöldi var mér bent á þennan vægast sagt skemmtilega Instagram aðgang.
Hún kallar sig Baddie Winkle og er alveg eiturhress miðað við aldur og fyrri störf.






Ég mæli allavega með því að allir fylgi henni á Instagram. Ég hef allavega helvíti gaman af henni.

Tuesday, April 29, 2014

Snyrtiveskið mitt

Stærstan hluta ævi minnar hef ég búið á Reyðarfirði. Fyrir þá sem ekki vita þá er það lítill bær fyrir austan. Þegar ég segi fyrir austan á ég að sjálfsögðu við Austurlandið, ekki Selfoss og nágrenni.
Á austurlandi var ekki mikið snyrtivöruframboð og lengi vel samanstóð því snyrtivörusafn mitt af þeim vörum sem fengust hverju sinni í Lyfju á Reyðarfirði. 
Fyrst um sinn notaði ég einungis vörur frá MaxFactor. Þær hurfu svo um leið og þær vörur voru látnar víkja fyrir Gosh. 
Ég hafði fáar aðrar vörutegundir prófað en þessar tvær svo mig skorti ekki neitt. Ég hélt að eitt merki væri mér heldur betur nóg.

Þar til fyrir hálfu ári síðan innihélt snyrtiveskið mitt að mestu ennþá einungis vörur úr apótekinu. Ekki það að það sé eitthvað slæmt, alls ekki.
Ég var þó orðin töluvert þreytt á því að vera alltaf með sama gamla dótið og ákvað því að prufa eitthvað neitt. Af stað hélt ég því í jómfrúarferð mína í MAC.
Ég hafði sannarlega oft labbað framhjá MAC búðinni en aldrei þorað þar inn. Manneskja sem veit ekki hvað skal gera við highlighter getur nú varla átt erindi þangað. Ég sprangaði því um og reyndi að láta lítið fyrir mér fara í fyrstu og þorði ekki fyrir mitt litla líf að biðja um aðstoð, enda vissi ég varla að hverju ég var að leita.
Ég var í þann mund að fara að labba út tómhent þegar ein afgreiðslustúlkan vatt sér upp að mér og áður en ég vissi af var ég komin í förðun.
Ég náði því í þeirri ferð að næla mér í nokkrar vörur sem ég gæti í dag ekki hugsað mér að vera án.
Mér finnst lang skemmtilegast að blanda saman allskyns vörum og fá þannig skemmtilegri útkomur en ef aðeins er notuð ein tegund.


Í snyrtiveskinu mínu kennir því nú ýmissa grasa. Hér má sjá það helsta.

Maybelline Brow Drama
MAC Lingering Eye Brows
Maybelline Dream Fresh BB
Loréal Lumi Primer
Þessi primer gefur húðinni mjög fallega áferð en hann hentar síður þeim sem eru með feita húð.
Ég er með feitt T-svæði og finnst hann ýta undir það.
NYX Eye Shadow Base
Make Up Store Glitter Eyeliner
Maybelline Eyestudio
Þessi augnskuggapalletta finnst mér vera algjört möst í snyrtiveskið. Hún er frískleg og litirnir í henni eru ekki of dökkir. Þessa nota ég mikið þegar mig vantar eitthvað smá extra en vil ekki vera of fín.
Loréal Lumi Highlighter Pen
MAC Face and Body Foundation 
Þessi farði finnst mér vera einn sá besti sem völ er á. Hann er mjög léttur og felur til dæmis ekki freknurnar sem mér finnst mjög stór kostur.
Smashbox Photo Finish Primer
Body Shop Bronzing Powder
Gosh Catchy Eyes
MAC Powder Blush
Loréal Super Liner
Þessi eyeliner er frábær til þess að gera þunnar og fallegar línur.
Make Up Store Cover All Mix
Ég er enn að reyna að gera það upp við sjálfa mér hvort þessi vara sé eitthvað fyrir mig. Ég sé ekki þetta frábæra við hana sem allir virðast vera að tala um en ætla að gefa henni aðeins lengri séns.
MAC Mineralize Skinfinish Natural


Mér finnst mjög gaman að dunda mér við allskyns förðun þegar ég hef góðan tíma í það. Að mála sig þegar ég er ný stigin uppúr rúminu er því ekkert fyrir mig. Ég er því einstaklega heppin að vera í vinnu þar sem það er mér nánast til meiri trafala að mæta máluð en ekki.
Ég á það þó til á frídögum að skella á mig andlitinu, allavega svona annað slagið. Hér fáið þið því smá sýnishorn af förðun með mínum uppáhalds snyrtivörum.


Vörur: Mac Face and Body Foundation// MAC Mineralize Skinfinish Natural// Body Shop Bronzing Powder// MAC Powder Blush// Maybelline Eyestudio// Loréal Super Liner// Gosh Catchy Eyes// Maybelline Brow Drama

Á vörunum er ég svo vanalega bara með Blistex varasalva. Ég hef reynt án árangurs í mörg ár að nota hverskyns varaliti en efri vörin á það alltaf til að hverfa þegar ég tek upp á því. Það eru því aðeins tveir kostir í stöðunni; Hætta með öllu að nota varaliti eða fá sér botox. Ég hef ekki enn gert upp hug minn.