Páskarnir ættu nú seint að hafa farið framhjá nokkrum manni enda eru íslendingar æstir í það að birta myndir af bæði páskaeggjum og málsháttum. Ég er nú ekki kristinnar trúar en er þó mikið fegin þessum dögum. Páskarnir gefa manni nefninlega afsökun til þess að troða vel í sig, sem mér þykir nú aldrei leiðinlegt. Svo ekki sé minnst á launin sem maður fær fyrir að vinna á rauðu dögunum.
Nammi í morgunmat. Það segir nú ekki margur nei við því. Ég var þó fljót að gefa þennan súkkulaðibolta frá mér, enda aldrei verið mikið fyrir súkkulaði.
Í seinni tíð hefur mér tekist ágætlega að sætta mig við það að ég verð sennilega aldrei grannvaxin. Til þess þykur mér matur of góður. Ég hef milljón og einu sinni reynt að fara í eitthvað sem kallast megrun eða lífstílsbreyting. Það endist oftast í svona viku. Þá gefst ég upp og kaupi mér kók.
Ég hef til dæmis oftar en einu sinni reynt að gefa mig alla í Herbalife lífstílinn. Eytt fúlgu fjár í duft og pillur og fékk í staðin loforð um flottasta líkamann i bænum. Hversu lengi entist það? Í þrjá daga. Eftir þrjá daga á þessum kúr var ég orðin svo pirruð og rugluð á því að hugsa útí allt það sem ég lét ofan í mig að ég gafst upp og keypti mér langþráð sushi. Já eftir 3 daga á duftkúr er sushi langþráð.
Mér er einnig sérlega minnistætt þegar ég ætlaði í eitthvert skiptið að taka mig rækilega í gegn og missa nokkra tugi kílóa. Nennti ég að fara í ræktina og hreyfa mig? Nei. Í staðin fannst mér það hreint út sagt frábær hugmynd að fara bara á súpukúr. Já ég skyldi sko borða súpu í hvert einasta mál því að sjálfsögðu fyrirfinnast hvorki kolvetni né fita í fljótandi fæði. Mig minnir að ég hafi fengið mér súpu í hádeginu einn daginn og síðan ekki söguna meir. Það er þó vert að taka það fram að ég var mun yngri og vitlausari en nú þegar ég fékk þessa ágætu flugu í hausinn.
Mér finnst því einstaklega illa gert gagnvart okkur átelskendum að halda fitness mót um miðja páska. Keppendur gætu þá allavega sýnt okkur þá kurteisi að birta engar bikinimyndir af sér fyrr en eftir að þjóðin er búin að éta sig pakksadda af súkkulaði og mat.
Ég læt þetta þó ekki stoppa mig og ætla að taka góðan lúr fyrir páskalambið.
Ég keppi bara í fitness á næsta ári.
No comments:
Post a Comment