Jæja ætli það sé ekki betra að henda í smá update hér fyrir vini og vandamenn, jafnvel þá sem þekkja mig ekki en fylgjast samt með. Mig langar til þess að segja að ég hafi verið vant við látinn undanfarið vegna lærdóms en sannleikurinn er sá að ég hef legið í veikindum síðustu daga.
Ég ætlaði þó heldur betur að nota helgina í lærdóm enda lokaprófin á næsta leiti svo ég var ekki aðeins farin að sofa fyrir miðnætti annað kvöld heldur tókst mér líka að rífa mig á lappir fyrir hádegi í morgun. Já dagurinn yrði sko heldur betur nýttur í lærdóm og ég skyldi sko glósa fram í rauðan dauðan.
Síðan klukkan 10 í morgun er ég búin að naglalakka mig tvisvar, gera mér ferð í ekki fyrsta og ekki síðasta sinn á snyrtivöruútsölu í Hagkaupum, fara í kaffi til ömmu og afa, fullkomna aðventukransinn, skipta um 1 af rúmlega 100 sprungnum ljósaperum í íbúðinni, kaupa eina jólagjöf og horfa á 2 þætti af henni Ástríði minni. Og að sjálfsögðu er ég búin að glósa heilar 2 blaðsíður.
Já lærdómurinn tekur svo sannarlega sinn toll.
Fyrir áhugasöm jólabörn má svo hér sjá mynd af aðventukransi Leirunnar. Ég gerði mér að sjálfsögðu sérferð í búð til þess að kaupa tölustafina á kertin. Já það sem maður leggur ekki á sig yfir hátíðarnar.
No comments:
Post a Comment