Myndir úr daglegu lífi mínu síðustu daga..
Ég hef aðeins tvisvar sinnum hætt mér útúr húsi fyrir kl. 8 að morgni til síðan ég fluttist í borgina enda persónulega hrifin af fáu sem á sér stað svona snemma dags. Í fyrra skiptið skellti ég mér í frítt andlitsbað á vegum Snyrtiakademíunar og í seinna skiptið fór ég í fría klippingu og litun í Tækniskólanum. Niðurstaðan er því sú að ég fer ekki sjálfviljug á fætur fyrir hádegi nema um frítt dekur sé að ræða.
Amma og afi eru í algjöru uppáhaldi. Þeim finnst sennilega fátt skemmtilegra en að hitta börnin og barnabörnin og því mætum við þeirra sem búum í borginni alltaf í kaffi til þeirra á sunnudögum. Eins og þið sjáið þá býður amma sko ekki upp á neitt slor.
Fyrir um það bil viku síðan ákvað ég að gefa kortinu mínu smá pásu og það virkaði svo helvíti vel að ég eyddi engum pening fyrr en ég þurfti nauðsynlega að fara í apótek á fimmtudaginn síðasta. Um leið og ég hafði rifið kortið niður gekk mér erfiðlega að hafa það kyrrt í veskinu og því endaði þessi kápa heim með mér. Þetta voru þó nauðsynjakaup þar sem úlpan mín góða er öll í henglum og ég týni reglulega hlutum inní henni vegna fjölda gata í vösum.
Ég luma þó á öðru sparnaðarráði sem ég ætla að deila með ykkur bráðum.
Við meðleigjendurnir trítuðum okkur með smá Valdís í lærdómspásu um daginn. Við vorum reyndar ekkert að læra. Og vorum nýbúnar að borða kvöldmat en það er önnur saga..
Ég er stundum góð systir og passa systkini mín endrum og eins. Vala systir var í heimsókn á föstudaginn og fékk smá manicure. Þegar hún fékk að sjá hið forláta naglalakkssafn Leirunnar tjáði hún mér að ég væri sjúk. Ég veit upp á mig sökina.
Vala er auðsjáanlega mikill hugsuður og valdi naglalakkið sem sést á myndinni sko ekki af handahófi! Aðspurð sagðist hún hafa fengið innblásturinn úr bíómynd sem hún hafði nýlega séð. Þegar ég segi bíómynd meina ég augljóslega stórmyndina Despicable Me 2 og þegar ég segi nýlega þá á ég við hálftíma áður en naglalökkunin átti sér stað.
Þessa snilld sá ég í Megastore um daginn og stóðst auðvitað ekki mátið. Nogstalgían hvarf þó fljótt þegar ég uppgötvaði að það voru engin tattoo í pakkanum, einungis ljótir límmiðar.
Að lokum fáið þið svo mynd af vinsælasta hádegismatnum á þessu heimili, tortillupizzu. Pizzasósu, áleggi og osti er hent á tortillu og hún fer svo inn í ofn þar til osturinn er orðin girnó, hollt og gott! Nema ekki hollt, bara gott.
No comments:
Post a Comment