Pages

Tuesday, April 29, 2014

Snyrtiveskið mitt

Stærstan hluta ævi minnar hef ég búið á Reyðarfirði. Fyrir þá sem ekki vita þá er það lítill bær fyrir austan. Þegar ég segi fyrir austan á ég að sjálfsögðu við Austurlandið, ekki Selfoss og nágrenni.
Á austurlandi var ekki mikið snyrtivöruframboð og lengi vel samanstóð því snyrtivörusafn mitt af þeim vörum sem fengust hverju sinni í Lyfju á Reyðarfirði. 
Fyrst um sinn notaði ég einungis vörur frá MaxFactor. Þær hurfu svo um leið og þær vörur voru látnar víkja fyrir Gosh. 
Ég hafði fáar aðrar vörutegundir prófað en þessar tvær svo mig skorti ekki neitt. Ég hélt að eitt merki væri mér heldur betur nóg.

Þar til fyrir hálfu ári síðan innihélt snyrtiveskið mitt að mestu ennþá einungis vörur úr apótekinu. Ekki það að það sé eitthvað slæmt, alls ekki.
Ég var þó orðin töluvert þreytt á því að vera alltaf með sama gamla dótið og ákvað því að prufa eitthvað neitt. Af stað hélt ég því í jómfrúarferð mína í MAC.
Ég hafði sannarlega oft labbað framhjá MAC búðinni en aldrei þorað þar inn. Manneskja sem veit ekki hvað skal gera við highlighter getur nú varla átt erindi þangað. Ég sprangaði því um og reyndi að láta lítið fyrir mér fara í fyrstu og þorði ekki fyrir mitt litla líf að biðja um aðstoð, enda vissi ég varla að hverju ég var að leita.
Ég var í þann mund að fara að labba út tómhent þegar ein afgreiðslustúlkan vatt sér upp að mér og áður en ég vissi af var ég komin í förðun.
Ég náði því í þeirri ferð að næla mér í nokkrar vörur sem ég gæti í dag ekki hugsað mér að vera án.
Mér finnst lang skemmtilegast að blanda saman allskyns vörum og fá þannig skemmtilegri útkomur en ef aðeins er notuð ein tegund.


Í snyrtiveskinu mínu kennir því nú ýmissa grasa. Hér má sjá það helsta.

Maybelline Brow Drama
MAC Lingering Eye Brows
Maybelline Dream Fresh BB
Loréal Lumi Primer
Þessi primer gefur húðinni mjög fallega áferð en hann hentar síður þeim sem eru með feita húð.
Ég er með feitt T-svæði og finnst hann ýta undir það.
NYX Eye Shadow Base
Make Up Store Glitter Eyeliner
Maybelline Eyestudio
Þessi augnskuggapalletta finnst mér vera algjört möst í snyrtiveskið. Hún er frískleg og litirnir í henni eru ekki of dökkir. Þessa nota ég mikið þegar mig vantar eitthvað smá extra en vil ekki vera of fín.
Loréal Lumi Highlighter Pen
MAC Face and Body Foundation 
Þessi farði finnst mér vera einn sá besti sem völ er á. Hann er mjög léttur og felur til dæmis ekki freknurnar sem mér finnst mjög stór kostur.
Smashbox Photo Finish Primer
Body Shop Bronzing Powder
Gosh Catchy Eyes
MAC Powder Blush
Loréal Super Liner
Þessi eyeliner er frábær til þess að gera þunnar og fallegar línur.
Make Up Store Cover All Mix
Ég er enn að reyna að gera það upp við sjálfa mér hvort þessi vara sé eitthvað fyrir mig. Ég sé ekki þetta frábæra við hana sem allir virðast vera að tala um en ætla að gefa henni aðeins lengri séns.
MAC Mineralize Skinfinish Natural


Mér finnst mjög gaman að dunda mér við allskyns förðun þegar ég hef góðan tíma í það. Að mála sig þegar ég er ný stigin uppúr rúminu er því ekkert fyrir mig. Ég er því einstaklega heppin að vera í vinnu þar sem það er mér nánast til meiri trafala að mæta máluð en ekki.
Ég á það þó til á frídögum að skella á mig andlitinu, allavega svona annað slagið. Hér fáið þið því smá sýnishorn af förðun með mínum uppáhalds snyrtivörum.


Vörur: Mac Face and Body Foundation// MAC Mineralize Skinfinish Natural// Body Shop Bronzing Powder// MAC Powder Blush// Maybelline Eyestudio// Loréal Super Liner// Gosh Catchy Eyes// Maybelline Brow Drama

Á vörunum er ég svo vanalega bara með Blistex varasalva. Ég hef reynt án árangurs í mörg ár að nota hverskyns varaliti en efri vörin á það alltaf til að hverfa þegar ég tek upp á því. Það eru því aðeins tveir kostir í stöðunni; Hætta með öllu að nota varaliti eða fá sér botox. Ég hef ekki enn gert upp hug minn.



Sunday, April 20, 2014

Áthátíð

Páskarnir ættu nú seint að hafa farið framhjá nokkrum manni enda eru íslendingar æstir í það að birta myndir af bæði páskaeggjum og málsháttum. Ég er nú ekki kristinnar trúar en er þó mikið fegin þessum dögum. Páskarnir gefa manni nefninlega afsökun til þess að troða vel í sig, sem mér þykir nú aldrei leiðinlegt. Svo ekki sé minnst á launin sem maður fær fyrir að vinna á rauðu dögunum. 


Nammi í morgunmat. Það segir nú ekki margur nei við því. Ég var þó fljót að gefa þennan súkkulaðibolta frá mér, enda aldrei verið mikið fyrir súkkulaði.

Í seinni tíð hefur mér tekist ágætlega að sætta mig við það að ég verð sennilega aldrei grannvaxin. Til þess þykur mér matur of góður. Ég hef milljón og einu sinni reynt að fara í eitthvað sem kallast megrun eða lífstílsbreyting. Það endist oftast í svona viku. Þá gefst ég upp og kaupi mér kók.
Ég hef til dæmis oftar en einu sinni reynt að gefa mig alla í Herbalife lífstílinn. Eytt fúlgu fjár í duft og pillur og fékk í staðin loforð um flottasta líkamann i bænum. Hversu lengi entist það? Í þrjá daga. Eftir þrjá daga á þessum kúr var ég orðin svo pirruð og rugluð á því að hugsa útí allt það sem ég lét ofan í mig að ég gafst upp og keypti mér langþráð sushi. Já eftir 3 daga á duftkúr er sushi langþráð. 

Mér er einnig sérlega minnistætt þegar ég ætlaði í eitthvert skiptið að taka mig rækilega í gegn og missa nokkra tugi kílóa. Nennti ég að fara í ræktina og hreyfa mig? Nei. Í staðin fannst mér það hreint út sagt frábær hugmynd að fara bara á súpukúr. Já ég skyldi sko borða súpu í hvert einasta mál því að sjálfsögðu fyrirfinnast hvorki kolvetni né fita í fljótandi fæði. Mig minnir að ég hafi fengið mér súpu í hádeginu einn daginn og síðan ekki söguna meir. Það er þó vert að taka það fram að ég var mun yngri og vitlausari en nú þegar ég fékk þessa ágætu flugu í hausinn.

Mér finnst því einstaklega illa gert gagnvart okkur átelskendum að halda fitness mót um miðja páska. Keppendur gætu þá allavega sýnt okkur þá kurteisi að birta engar bikinimyndir af sér fyrr en eftir að þjóðin er búin að éta sig pakksadda af súkkulaði og mat. 

Ég læt þetta þó ekki stoppa mig og ætla að taka góðan lúr fyrir páskalambið.
Ég keppi bara í fitness á næsta ári.



Thursday, April 10, 2014

NaglaLÖKK til sölu


Don´t Violet Me Down by Opi// Metallic White by Kleancolor// Superpower Blue by Maybelline// Top Coat Confetti by Loréal// Gasoline by Gosh// Silent Stars Go By by Opi// Salsa by Kleancolor

Já kæru lesendur, nú hef ég endanlega gengið af göflunum. 
Vegna plássleysis hef ég ákveðið að selja nokkur af naglalökkunum mínum á skít og kanil ef áhugi er fyrir hendi. Flest þessara lakka hafa einungis verið brúkuð einu sinni og eiga því vel skilið að eignast nýtt heimili. 
Engar áhyggjur þó, ég nældi mér í tvö ný naglalökk í dag svo ég er nú ekki að verða uppiskroppa. 
Endilega hafið samband ef þið hafið áhuga, þessar elskur fara allar á sanngjörnu verði.