Pages

Thursday, January 30, 2014

Kvöldsnarl

Í dag fór ég í mína fyrstu ferð í Heilsuhúsið. Ég get nú ekki sagt að ég hafi héðan af verið mikill aðdáandi lífræns lífstíls þó svo að maður mætti alveg tileinka sér það endrum og eins. Þar sem ég var eini viðskiptavinurinn reyndi ég að sýna afgreiðsludömunum ekki hneykslunarsvipinn á mér þegar ég sá að ferna af möndlumjólk kostaði heilar 1000 kr. Ég bý hana frekar til sjálf. Í snarhasti greip ég með mér það sem mig vantaði og kom mér yfir í næstu búð. 
Ég ætla þó ekki að fara að prísa yfir ykkur um heilsusamlegan lífstíl og ágæti þess að borða lífrænt þar sem það hvarflar ábyggilega að fleirum en mér þegar ég háma í mig einhverju dísætu og söltu.
Ég ákvað að prufa uppskrift af heilsusamlegri bolla-brownie og deila henni með ykkur ef fleiri áhugasamir væru þarna úti. 


1 væn skeið súkkulaðiprótein
1/2 matskeið kakó
1/2 teskeið lyftiduft
1/2 matskeið kókoshveiti
Slurkur af sætuefni að eigin vali
1/4 bolli af möndlumjólk eða vatni


Öllu blandað vel saman með handafli. Útlitið minnir eilítið á Royal búðing.


Deiginu er svo skellt í bolla eða grunna skál. Betra er að nota grunnan bolla, sá sem ég notaði var kannski full stór


Inní örbylgjuna í 25-35 sekúndur. Kakan gæti hæglega brunnið við ef hún er höfð mikið lengur inni.


Flóknara er það ekki! Úr varð hin fínasta súkkulaði bollakaka með kókoshnetukeim. Mæli með að þið prufið ef sætindaþörfin er alveg að fara með ykkur, enda nennir enginn út í þetta veður að kaupa sér snakk.

Uppskriftin er héðan





Föndurstund gefur gull í mund



Heil og sæl , komin tími á að ég láti í mér heyra :)


Ætla að smella hér inn smá föndri, er nú samt ekki og hef aldrei verið mikil föndurkona, hef einfaldlega ekki þolinmæðina í það, en ég lét reyna á hæfileikana um daginn (ekki að það hafi þurft mikla hæfileika í eftirfarandi framkvæmdir)




Keypti koparlitaða málningu og penslin á slikk í Söstrene Grene



... og úr urðu þessar fínu flöskur, þvílíkt listaverk ekki satt?

-gm

Monday, January 27, 2014

Spennan magnast

Euro-nördinn í mér gleðst svo sannarlega yfir því að loksins sé búið að opinbera hluta þeirra laga sem keppast um að komast í keppnina Köben í maí næstkomandi. Það kemur þó sennilega fáum, bæði Euro-nördum og öðrum, á óvart að lögin eru ekkert til þess að hrópa húrra fyrir og einhvernvegin á ég erfitt með að trúa því að þetta séu bestu lög þeirra hundraða sem send voru í keppnina. 
Ég er þó samt sem áður spennt og af þeim lögum sem keppa næstkomandi laugardag vona ég að Sverrir Bergmann hreppi hnossið. Hann er bara svo sætur. Með guðdómlega rödd.
Ég lofa jafnframt að breyta ekki blogginu í Eurovision áróður þó svo að tímabilið góða sé runnið upp.

HÉR er hægt að hlusta á lögin fyrir áhugasama. Hvert er ykkar uppáhalds?


Gleðilegt Eurovision!



Thursday, January 23, 2014

Þurrt naglalakk á nokkrum sekúndum?

Ég er ein af þeim sem er óskaplega óþolinmóð og er oftar en ekki með nuddað naglalakk á mér vegna þess að ég bara einfaldlega nenni ekki að bíða eftir því að það þorni almennilega. Fyrir nokkru síðan uppgötvaði ég þó það snilldar ráð að spreyja góðum slurki af cooking sprey-i á neglurnar til þess að þurrka lakkið fyrr.
Mömmu gömlu féllust þó hendur þegar hún las færsluna góðu um cooking sprey-ið og fannst ekki ásættanlegt að eiga dóttur sem notaðist við slík ráð. Hún var því svo góð að gefa mér sérstakt sprey sem flýtir fyrir þornun naglalakks. Ekki vissi ég einu sinni að það væri til.


Spreyið góða er frá snyrtivörumerkinu FM og er það selt hjá sjálfstæðum aðilum. 

Nokkrar staðreyndir um spreyið:

1. Flýtir fyrir þornun naglalakks
2. Verndar lakkið gegn skrámum og rispum
3. Gefur fallegan gljáa og dregur fram litinn á lakkinu
4. Þurrkar ekki naglaböndin
5. Gufar fljótt upp og klístrar ekki


Hér er ég svo búin að spreyja góðum slurk á nöglina. Eins og glöggir sjá er ekki eins mikil olía í þessu og cooking spreyi og því ekki nauðsynlegt að þvo hendurnar strax á eftir. Ég spreyja oftast bara einu sinni á hverja nögl sem er alveg meira en nóg. 
Ég hef notað þetta sprey í um 2 mánuði núna með hrikalega góðum árangri og mæli því hiklaust með þessu fyrir allar óþolinmóðu vinkonur mínar þarna úti. 
Vonandi hjálpar þetta einhverjum!

HÉR er hægt að kaupa spreyið og kostar það litlar 1790 kr. 




Tuesday, January 21, 2014

Þrennan: Útsölukaup

Ég gerði sjálfri mér það viljandi að kíkja óvenju sjaldan á útsölurnar í ár, enda þykist ég vera að spara. Ég reyndi jafnframt að hafa alltaf lítinn pening inni á kortinu svo ég færi nú ekki að eyða aleigunni í útsöluvörur. Það ráð virkar þó sjaldnast á mig þar sem ég eyði gjarnan fúlgu fjár á Ebay í skjóli nætur. Svo er að sjálfsögðu of lítið mál að skella sér inn á einkabankann í símanum og bæta aðeins inná.
Ég gerði mér þó sitthvora ferðina í Kringluna og Smáralind og gerði ég þar vægast sagt góð útsölukaup.


Iittala

Eins og svo mjög margir er ég forfallinn Iittala aðdáandi. Það þurfti því ekki að spyrja mig tvisvar þegar ég var beðin um að koma með á útsölu Búsáhalda þar sem allt Iittala merkt var á 20% afslætti. 
Ég gat þó ómögulega valið á milli þessara tveggja Mariskála svo ég tók að sjálfsögðu bara báðar. Litlu mátti muna að ég gripi nokkra múmínbolla með mér í leiðinni en einhvernvegin hefur mér tekist að hemja græðgina.


Hálsmen

Ég tel sjálfri mér statt og stöðugt trú um að mig vanti alltaf ný hálsmen. Enda á ég sennilega ekki nema um 50. Nei okei kannski ekki alveg. Svona 45. 47 með þessum tveimur sem fengu að koma heim með mér úr MOA.


Naglalökk

Ég á að sjálfsögðu ekki nóg af naglalökkum heldur og þessi fjögur urðu því bara að fljóta með mér heim. Ég hafði aldrei áður leyft mér að kaupa naglalakk í Make Up Store, aðallega vegna verðlagningarinnar, en þökk sé útsölunni kostaði hvert stykki aðeins litlar 590. kr. Lánið lék svo aldeilis meira við mig þar sem elsku mamma var með í för og heimtaði hún að fá að borga góssið fyrir naglalakksóðu dótturina. Já mamma er svo sannarlega best.





Saturday, January 18, 2014

Home Details: Svona bý ég

Á síðasta ári tók ég ákvörðun um það að flytja suður. Sú ákvörðun var tekin í miklu skyndi og henni fylgdi því mikið stress, aðallega hvað varðaði væntanlega búsetu mína en á tímabili leit allt út fyrir að ég  yrði úti á götum borgarinnar. 
Lukkulega hefur systir mín ráð undir rifi hverju og kom mér inn hjá mágkonu sinni. Mágkonuna hafði ég einungis hitt einu sinni áður en ég flutti inn til hennar og 2 ára sonar hennar. Sú ákvörðun kom sennilega öllum mínum nánustu á óvart þar sem ég er ekki beint þekkt fyrir að vera nein barnagæla. Litli maðurinn hefur þó alveg sigrað mig og við erum oftast bestu vinir. 
Hér eru nokkrar myndir af mínum uppáhalds hlutum á okkar heimili.
Njótið vel!













Wednesday, January 15, 2014

Gwen Stefani for OPI


Fyrir þær sem ekki vita þá er Gwen Stefani búin að hanna naglalakkslínu í samstarfi við OPI. Minn innri naglalakksfíkill hoppaði að sjálfsögðu hæð sína af kæti og löngunin í lökkin var svo mikið að ekkert annað komst að í huga undirritaðrar, hvorki í svefni né í vöku. Þið getið því ýmindað ykkur svekkelsið þegar ég mætti manna fyrst í Hagkaup á mánudagsmorgun og engin naglalökk komin enn. 
Ég var við það að gefast upp en mér til mikillar gleði sá ég í morgun að þau voru loksins komin! Já fýluferðarnar þrjár sem ég var búin að gera mér dagana á undan hurfu úr minninu á núll einni.


Ég var sko löngu búin að ákveða hvaða naglalökk yrðu fyrir valinu og ég var því ekki lengi að borga, hlaupa út í bíl og beint heim að naglalakka mig. Ef ekki hefði verið fyrir fjölda fólks á bílastæði Smáralindarinnar hefði ég sennilega bara smellt því á mig í bílnum, en ég náði þó að hemja mig í það skiptið.


Taugaveiklunin var slík að mér tókst ekki aðeins að naglalakka neglurnar heldur alla puttana líka. Æsingurinn hefur svo náð hámarki þegar myndatakan átti sér stað enda var ekki eina óhreyfða mynd að finna að henni lokinni. Svo hér fáið þið auka mynd af google. 
Gulllitaða lakkið sveik mig sko ekki. Það er með satínáferð sem er einstaklega falleg og lakkið fær stóran plús í kladdan fyrir að vera einstaklega fljótt að þorna. 


Silfurlakkið var sko alls ekki síðra, eiginlega bara flottara ef eitthvað er. Það er alveg metallitað og það nánast liggur við að maður geti speglað sig í því. Ég mun án efa nota það mjög mikið enda tilvalið til þess að poppa upp á svart dress. Þessi mynd gefur lakkinu hinsvegar ekki heldur mjög góð skil (ég þarf augljóslega að fara á ljósmyndunarnámskeið) svo google kom mér aftur til bjargar.


Nú erum við sko að tala saman. OPI hefur ekki svikið mig hingað til og ætlar sér greinilega ekki að gera það. Ég er yfir mig hrifin af Gwen Stefani línunni og þykir líklegt að ég endi með því að kaupa mér svarta lakkið úr línunni, en það er líkt og þetta gulllitaða með satínáferð. 
Lökkin fást í Hagkaupum og Lyfju og seljast án efa mjög fljótt upp svo ef þið ætlið að næla ykkur í eintak þá er ekkert vit í því að slóra við það.





Tuesday, January 14, 2014

Þrennan: Vandræðaleg áhugamál

Flestir kannast við það að eiga sér áhugamál sem þola helst ekki dagsljós. Nú er ég ekki að tala um áhugamál sem jaðra við það að vera glæpsamleg heldur þau áhugamál sem þú hálft í hvoru skammast þín fyrir og veist að þér yrði strítt af til eilífðarnóns ef þú viðurkenndir tilvist þeirra fyrir nokkrum manni. Ég ætla þó að taka áhættuna og viðurkenna þrjú af mínum áhugamálum sem einna helst ættu heima inni í skáp.



Eurovision

Sjálf skammast ég mín nú sjaldnast fyrir það að hafa brennandi áhuga á Eurovision en vinir mínir hafa þó í gegnum tíðina reynt að telja mér trú um að ég ætti helst að halda þessum áhuga út af fyrir mig ef ég vil ekki vera litin hornauga af samfélaginu. Ég bara skil ekki hvað er vandræðalegt við það að hlusta á austur Evrópskt glyspopp. Skil það ekki.
Ég reið á vaðið um daginn og keypti mér meira að segja miða á Eurovision næstkomandi. Hinir fyrrnefndu vinir mínir virðast þó ekki hafa snefiláhuga á því að koma með mér og ég verð því líklegast að standa ein í höllinni í maí grenjandi úr gleði með íslenska fánan í hönd. Það verður ekkert vandræðalegt. 



Syngja hástöfum ein í bílnum

Mín kenning er sú að lang flestir stundi þetta áhugamál í miklu mæli. Ég tek sjaldan betri sóló en í bílnum og á það stundum til að bresta í dans í þokkabót. Að sjá mig syngjandi hástöfum og dillandi mér í takt við tónlistina á rauðu ljósi getur nú varla verið meiri hryllingur en skemmtun fyrir aðra ökumenn. Áfram þetta áhugamál!



Fasteignasíða mbl.is

Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar nappað sjálfa mig við það að klæmast yfir hinum ýmsu einbýlishúsum og íbúðum á fasteignavef Morgunblaðsins. Ekki það að ég sé á þeim buxunum að festa kaup á fasteign, ég hef bara óbilandi áhuga á því að sjá hvernig fólk býr. Svo ef þið eruð að hugleiða að selja hýbýli ykkar þá þætti mér vænt um að þið tækuð frekar myndir áður en þið tæmið rýmin. Svona fyrir okkur fasteignaperrana. 





Monday, January 13, 2014

Auðveld naglatrix





Ég mæli með þessu ágæta myndbandi fyrir fellow naglalakksheftar stúlkur heimsins. Ég hef prufað ófá trix sem reyndust vera idiotproof en urðu svo að hryllingi eftir að ég reyndi að framkvæma þau með mína 10 þumalputta. 
Þetta myndband fann ég að sjálfsögðu á uppáhaldssíðunni minni, Buzzfeed , en það er hægt að finna ýmsan skemmtilegan fróðleik. Vonandi hjálpar þetta myndband einhverjum í að fikra sig skrefinu lengra í naglalakks listinni.

Tuesday, January 7, 2014

Þrennan: Uppáhalds snyrtivörur


Þriðjudagsþrennan snýr að þessu sinni að snyrtivörum. Ég á það til að kaupa mér ógrynni af snyrtivörum sem ég nota svo ekki nema 1-2 sinnum. Hér fáið þið því að sjá 3 af þeim snyrtivörum sem sluppu í gegnum síuna hjá mér og eru brúkaðar dags daglega. Allavega þá daga sem ég nenni að setja upp andlitið. 



Brow Drama - Maybelline

Þetta augabrúnagel hefur heldur betur slegið í gegn hér á landi og svo slæmt var ástandið að varan seldist upp hjá byrgja fyrir jól og því urðu flestar konur landsins að halda sig á innandyra á milli jóla og nýárs svo ekki sæist til þeirra með aðeins hálft andlit. 
Við systur vorum þó svo heppnar að ná að næla okkur í sitthvort eintakið og höfum því ekki haft undan  við að láta sjá okkur meðal almennings undanfarið, enda er maður víst fær í flestan sjó sé maður vopnaður þessari snyrtivöru.
Gelið nota ég helst dagsdaglega því það er einkar náttúrulegt og fínt og hæfir því dagsljósi vel.
Brow Drama fæst meðal annars í Hagkaup og Lyfju.



Photo Finish Primer - Smashbox 

Já þessi vara er sko ekki síðri. Hér er um að ræða farðagrunn sem settur er á andlitið áður en farði er borin á það. Primerinn verndar ekki bara húðina heldur gefur hann líka einstaklega fallega áferð.
Áferðin er svo ómótstæðileg að menn hafa gengið svo langt að spyrja mig á götum úti hvort ég sé photoshoppuð. Nei sú er þó aldeilis ekki raunin, ég á bara svona helvíti góðan primer. 
Smashbox vörurnar góðu fást í Hagkaup.


At Night - Naomi Campbell

Síðast en ekki síst er það svo lífsvöki hverrar konu. Hægt er að eyða heilli lífstíð í leit að rétta ilmvatninu en ég er svo einstaklega heppin að vera búin að finna mitt. Lyktinni get ég eiginlega ekki lýst með orðum, hún er bara hreint ómótstæðileg. Ég mæli með því að allir hendist útí næstu snyrtivöruverslun og sniffið duglega. Þið munuð verða húkkt. 
Þetta ilmvatn og fleiri frá Naomi Campbell fást í Hagkaup.

Hvernig leggst Þrennan í ykkur, er þetta efni í vikulegan lið?
Endilega látið í ljós ykkar skoðun kæru vinir.