Pages

Sunday, February 8, 2015

Form límmiðar

Í sumar varð ég svo lukkuleg að vinna mér inn vegglímmiða að eigin vali í leik á vegum Form límmiða og króm.is. Form límmiðar bjóða uppá mikið úrval vegglímmiða í hinum ýmsu stærðum og formum. Ég valdi mér þríhyrninga og fékk sent spjald með 45 slíkum en var þó í mesta basli með að finna þessu góðan stað.
Nýlega flutti ég svo í leiguíbúð og fannst tilvalið að henda nokkrum þríhyrningum upp á vegginn milli eldhússkápanna og bekksins. 


Ég var lítið búin að spá í því hvernig ég ætlaði að raða þessu, ákvað bara að byrja og vinna mig út frá fyrsta þríhyrningnum. Ég er allavega mjög ánægð með útkomuna og finnst þetta snilldarlausn fyrir þá sem eru í leiguhúsnæði og vilja gera heimilið meira að sínu. 
Næst á dagskrá er svo að panta dropalímmiða og skella upp í þvottahúsinu. Þið fáið að sjálfsögðu að fylgjast með því!


HÉR finnið þið facebook síðu Form límmiða.


Friday, January 30, 2015

Flutningar


Eins og ég nefndi í síðustu færslu þá eiga flutningar hug minn allan þessa dagana.
Ég nota að sjálfsögðu flutningana sem afsökun til þess að kaupa mér fallegt góss enda jafn nauðsynlegt í mínum huga að eiga fallega muni og að eiga salt í grautinn. Það fyrrnefnda er jafnvel aðeins mikilvægara.

Ég splæsti því í þetta fallega ljós frá Snúrunni og setti það að sjálfsögðu strax í sambandi. Það fær að hvíla þarna í gluggakistunni meðan ég bíð eftir restinni af húsgögnunum.
HÉR má finna ljósið góða fyrir áhugasama og ekki skemmir fyrir að það er á tilboði!
Ég leyfi ykkur svo vitaskuld að fylgjast með þróun mála í flutningunum, bæði í máli og myndum.

Þar til næst!

Kristveig Lilja

Wednesday, January 28, 2015

Ebay rúnturinn

Ali Express æði Íslendinga hefur sennilega farið framhjá fáum og maður telst sennilega ekki maður með mönnum nema eiga allavega eitt par af Nike Free eftirlíkingu og ónotaða flík inní skáp sem passar ekki á neinn sem þú þekkir vegna þess að engum datt í hug að asískar stærðir væru frábrugðnar þeim evrópsku. Ég telst því sennilega ekki sem alvöru Íslendingur því ég luma á hvorugu. 
Ég er blessunarlega séð laus við Ali heilkennið og held mig við gamla góða Ebay-ið. Dæmi nú hver fyrir sig hvort sé skárra, enda báðar síður augljóslega jafn hættulegar þegar forfallnir kaupfíklar eiga í hlut. Þessi kaupalki velur þó Ebay af augljósustu ástæðunni: Það er ekki mönnum bjóðandi að bíða í meira en mánuð eftir netkaupum. Nei ég læt sko ekki bjóða mér slíka vitleysu.

Þessa dagana stend ég í flutingum og Ebay því heimsótt allavega 5 sinnum á sólarhring í leit að góssi og gersemum sem geta gert íbúðina mannsæmandi. Ég hef rekist á allnokkra fallega hluti sem ég ákvað að deila með ykkur. Eflaust eru einhverjir fleiri fagurkerar hér í leit að fallegum hlutum til að fegra heimilið og ekki skemmir fyrir ef þeir eru á góðum prís.



Hér má sjá fallega mottu á fantagóðum prís. 30 dollarar, frí sending og málið er steindautt. Ef hún væri til í stærri stærð væri hún hiklaust á leiðinni til mín í þessum töluðu.

Marmaraæðið virðist engann enda ætla að taka og finnst mér það ekki skrýtið enda tímalaust og fallegt mynstur. Þennan kertastjaka má finna á Ebay-inu góða en svipaðir stjakar fást í bæði Epal og Hrím og koma frá Ferm Living.


Á Ebay er allt morandi í alskyns landa- og heimskortum. Þetta hér fæst í hinum ýmsu stærðum og mætti vel flytja heim til mín.


Að sjálfsögðu er svo hægt að næla sér í eftirlíkingu af hinum geysivinsæla Kartell lampa. Eitt stykki ekta kostar hálfan búk en eftirlíkingin er á talsvert meira mannsæmandi verði eða 80 dollara.



Falleg koparklukka væri ekki amarlegt stofustáss. Þessi elska er föl fyrir rúma 16 dollara.


Falleg púðaver í ýmsum stærðum og gerðum. Mér finnst geometrísk mynstur einstaklega falleg og geta lífað upp á annars líflausa sófa.


Þessar hillur kosta nú sitt en fallegar eru þær svo þær fá að fljóta hér með. Svipaðar hillur fást frá danska merkinu Bloomingville.


Mikið úrval er af gamaldags og fallegum skiltum á spottprís.


Ég leyfi svo þessum gullfallega koparhnetti að fylgja í restina. Hann er full dýr fyrir minn smekk, 140 dollarar að undanskildum sendingarkostnaði, en það kostar ekkert að láta sig dreyma.



Kristveig Lilja