Pages

Tuesday, January 14, 2014

Þrennan: Vandræðaleg áhugamál

Flestir kannast við það að eiga sér áhugamál sem þola helst ekki dagsljós. Nú er ég ekki að tala um áhugamál sem jaðra við það að vera glæpsamleg heldur þau áhugamál sem þú hálft í hvoru skammast þín fyrir og veist að þér yrði strítt af til eilífðarnóns ef þú viðurkenndir tilvist þeirra fyrir nokkrum manni. Ég ætla þó að taka áhættuna og viðurkenna þrjú af mínum áhugamálum sem einna helst ættu heima inni í skáp.



Eurovision

Sjálf skammast ég mín nú sjaldnast fyrir það að hafa brennandi áhuga á Eurovision en vinir mínir hafa þó í gegnum tíðina reynt að telja mér trú um að ég ætti helst að halda þessum áhuga út af fyrir mig ef ég vil ekki vera litin hornauga af samfélaginu. Ég bara skil ekki hvað er vandræðalegt við það að hlusta á austur Evrópskt glyspopp. Skil það ekki.
Ég reið á vaðið um daginn og keypti mér meira að segja miða á Eurovision næstkomandi. Hinir fyrrnefndu vinir mínir virðast þó ekki hafa snefiláhuga á því að koma með mér og ég verð því líklegast að standa ein í höllinni í maí grenjandi úr gleði með íslenska fánan í hönd. Það verður ekkert vandræðalegt. 



Syngja hástöfum ein í bílnum

Mín kenning er sú að lang flestir stundi þetta áhugamál í miklu mæli. Ég tek sjaldan betri sóló en í bílnum og á það stundum til að bresta í dans í þokkabót. Að sjá mig syngjandi hástöfum og dillandi mér í takt við tónlistina á rauðu ljósi getur nú varla verið meiri hryllingur en skemmtun fyrir aðra ökumenn. Áfram þetta áhugamál!



Fasteignasíða mbl.is

Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar nappað sjálfa mig við það að klæmast yfir hinum ýmsu einbýlishúsum og íbúðum á fasteignavef Morgunblaðsins. Ekki það að ég sé á þeim buxunum að festa kaup á fasteign, ég hef bara óbilandi áhuga á því að sjá hvernig fólk býr. Svo ef þið eruð að hugleiða að selja hýbýli ykkar þá þætti mér vænt um að þið tækuð frekar myndir áður en þið tæmið rýmin. Svona fyrir okkur fasteignaperrana. 





3 comments:

  1. Nei sko, loksins einhver sem deilir því áhugamáli með mér að vera fasteignaperri! :)

    ReplyDelete
  2. Nei ókei þessi Eurovision áhugi er miklu, miklu meira en eðlilegur!!

    ReplyDelete