Pages

Wednesday, January 15, 2014

Gwen Stefani for OPI


Fyrir þær sem ekki vita þá er Gwen Stefani búin að hanna naglalakkslínu í samstarfi við OPI. Minn innri naglalakksfíkill hoppaði að sjálfsögðu hæð sína af kæti og löngunin í lökkin var svo mikið að ekkert annað komst að í huga undirritaðrar, hvorki í svefni né í vöku. Þið getið því ýmindað ykkur svekkelsið þegar ég mætti manna fyrst í Hagkaup á mánudagsmorgun og engin naglalökk komin enn. 
Ég var við það að gefast upp en mér til mikillar gleði sá ég í morgun að þau voru loksins komin! Já fýluferðarnar þrjár sem ég var búin að gera mér dagana á undan hurfu úr minninu á núll einni.


Ég var sko löngu búin að ákveða hvaða naglalökk yrðu fyrir valinu og ég var því ekki lengi að borga, hlaupa út í bíl og beint heim að naglalakka mig. Ef ekki hefði verið fyrir fjölda fólks á bílastæði Smáralindarinnar hefði ég sennilega bara smellt því á mig í bílnum, en ég náði þó að hemja mig í það skiptið.


Taugaveiklunin var slík að mér tókst ekki aðeins að naglalakka neglurnar heldur alla puttana líka. Æsingurinn hefur svo náð hámarki þegar myndatakan átti sér stað enda var ekki eina óhreyfða mynd að finna að henni lokinni. Svo hér fáið þið auka mynd af google. 
Gulllitaða lakkið sveik mig sko ekki. Það er með satínáferð sem er einstaklega falleg og lakkið fær stóran plús í kladdan fyrir að vera einstaklega fljótt að þorna. 


Silfurlakkið var sko alls ekki síðra, eiginlega bara flottara ef eitthvað er. Það er alveg metallitað og það nánast liggur við að maður geti speglað sig í því. Ég mun án efa nota það mjög mikið enda tilvalið til þess að poppa upp á svart dress. Þessi mynd gefur lakkinu hinsvegar ekki heldur mjög góð skil (ég þarf augljóslega að fara á ljósmyndunarnámskeið) svo google kom mér aftur til bjargar.


Nú erum við sko að tala saman. OPI hefur ekki svikið mig hingað til og ætlar sér greinilega ekki að gera það. Ég er yfir mig hrifin af Gwen Stefani línunni og þykir líklegt að ég endi með því að kaupa mér svarta lakkið úr línunni, en það er líkt og þetta gulllitaða með satínáferð. 
Lökkin fást í Hagkaupum og Lyfju og seljast án efa mjög fljótt upp svo ef þið ætlið að næla ykkur í eintak þá er ekkert vit í því að slóra við það.





No comments:

Post a Comment