Pages

Tuesday, May 13, 2014

Kjúklinganúðlur á kínverska vísu

Ég held ég verði seint titlaður einhver meistarakokkur, allavega ekki miðað við tilþrif mín í eldhúsinu. Ég er einnig mjög hugmyndasnauð þegar kemur að því að ákveða hvað skal hafa í matinn svo ég er með svona 5 uppskriftir sem ég skiptist bara á að elda. 
Ein þeirra er uppskrift af eggjanúðlum með kjúkling, dásamlega góður réttur sem hefur aldrei klikkað! Ég ætla að gefa ykkur uppskriftina og vona að ykkur líki vel.

Í uppskriftina þarf eftirfarandi hráefni:

3 kjúklingabringur
1 pakka eggjanúðlur
1 papriku
1 lauk
1 box af sveppum
Ostrusósu
Soyasósu
Púðursykur


Ég er mikill dassari þegar kemur að því að elda svo ekki láta ykkur bregða ef orðunum dass og slurk mun bregða fyrir í færslunni.


Byrjað er á því að henda kjúklingabringunum inn í ofn eða steikja þær á pönnu, það fer allt eftir hentisemi. Best er að krydda þær örlítið með kjúklingakryddi eða salti og pipar. 
Á meðan bringurnar malla eru núðlurnar soðnar eftir leiðbeiningum á pakka og niðurskorið grænmetið steikt á pönnu við vægan hita.
Á þessu stigi málsins reynir á multitaskarann í mönnum. 


Þegar núðlurnar eru soðnar er vatninu hellt af þeim og þeim blandað saman við grænmetið og því næst er niðurskornum kjúklingabringunum bætt við blönduna. 
Þá er komið að dassinu.


Í "sósuna" þarf ostrusósu, soyasósu og púðursykur. Ég hef aldrei notað neinar mælieiningar við sósugerðina í þessari uppskrift og er nánast sannfærð um það að betra sé að dassa hana til svo hún verði fullkominn.
Ég set um það bil hálfa flösku af ostrusósu, jafnvel aðeins meira, góðan slurk af soya sósu, ætli það séu ekki um það bil 1-2 matskeiðar. Því næst er góðum slatta af púðursykri hellt yfir, um það bil hálfum desilítra.
Þessu er svo blandað vel saman og smakkað til. Ekki hika við að setja minna af hráefnunum og bæta svo bara við ef ykkur finnst eitthvað vanta uppá.


Það hljómar kannski ekki vel að blanda saman púðursykri og soyasósu og hella því yfir kjúkling og núðlur en treystið mér, þetta er með því betra sem ég hef smakkað.

Skora á ykkur að prufa þennan rétt, það verður enginn svikinn!






No comments:

Post a Comment