Pages

Sunday, April 20, 2014

Áthátíð

Páskarnir ættu nú seint að hafa farið framhjá nokkrum manni enda eru íslendingar æstir í það að birta myndir af bæði páskaeggjum og málsháttum. Ég er nú ekki kristinnar trúar en er þó mikið fegin þessum dögum. Páskarnir gefa manni nefninlega afsökun til þess að troða vel í sig, sem mér þykir nú aldrei leiðinlegt. Svo ekki sé minnst á launin sem maður fær fyrir að vinna á rauðu dögunum. 


Nammi í morgunmat. Það segir nú ekki margur nei við því. Ég var þó fljót að gefa þennan súkkulaðibolta frá mér, enda aldrei verið mikið fyrir súkkulaði.

Í seinni tíð hefur mér tekist ágætlega að sætta mig við það að ég verð sennilega aldrei grannvaxin. Til þess þykur mér matur of góður. Ég hef milljón og einu sinni reynt að fara í eitthvað sem kallast megrun eða lífstílsbreyting. Það endist oftast í svona viku. Þá gefst ég upp og kaupi mér kók.
Ég hef til dæmis oftar en einu sinni reynt að gefa mig alla í Herbalife lífstílinn. Eytt fúlgu fjár í duft og pillur og fékk í staðin loforð um flottasta líkamann i bænum. Hversu lengi entist það? Í þrjá daga. Eftir þrjá daga á þessum kúr var ég orðin svo pirruð og rugluð á því að hugsa útí allt það sem ég lét ofan í mig að ég gafst upp og keypti mér langþráð sushi. Já eftir 3 daga á duftkúr er sushi langþráð. 

Mér er einnig sérlega minnistætt þegar ég ætlaði í eitthvert skiptið að taka mig rækilega í gegn og missa nokkra tugi kílóa. Nennti ég að fara í ræktina og hreyfa mig? Nei. Í staðin fannst mér það hreint út sagt frábær hugmynd að fara bara á súpukúr. Já ég skyldi sko borða súpu í hvert einasta mál því að sjálfsögðu fyrirfinnast hvorki kolvetni né fita í fljótandi fæði. Mig minnir að ég hafi fengið mér súpu í hádeginu einn daginn og síðan ekki söguna meir. Það er þó vert að taka það fram að ég var mun yngri og vitlausari en nú þegar ég fékk þessa ágætu flugu í hausinn.

Mér finnst því einstaklega illa gert gagnvart okkur átelskendum að halda fitness mót um miðja páska. Keppendur gætu þá allavega sýnt okkur þá kurteisi að birta engar bikinimyndir af sér fyrr en eftir að þjóðin er búin að éta sig pakksadda af súkkulaði og mat. 

Ég læt þetta þó ekki stoppa mig og ætla að taka góðan lúr fyrir páskalambið.
Ég keppi bara í fitness á næsta ári.



Thursday, April 10, 2014

NaglaLÖKK til sölu


Don´t Violet Me Down by Opi// Metallic White by Kleancolor// Superpower Blue by Maybelline// Top Coat Confetti by Loréal// Gasoline by Gosh// Silent Stars Go By by Opi// Salsa by Kleancolor

Já kæru lesendur, nú hef ég endanlega gengið af göflunum. 
Vegna plássleysis hef ég ákveðið að selja nokkur af naglalökkunum mínum á skít og kanil ef áhugi er fyrir hendi. Flest þessara lakka hafa einungis verið brúkuð einu sinni og eiga því vel skilið að eignast nýtt heimili. 
Engar áhyggjur þó, ég nældi mér í tvö ný naglalökk í dag svo ég er nú ekki að verða uppiskroppa. 
Endilega hafið samband ef þið hafið áhuga, þessar elskur fara allar á sanngjörnu verði.

Thursday, March 6, 2014

Vor&sumar neglur 2014


Fyrir nokkru síðan ákvað ég að fara í enn eina naglalakksafvötnunina. Mér fannst ég þvílíka hetjan þegar ég labbaði framhjá naglalökkum á 20% afslætti án þess að kaupa svo mikið sem eitt. Ég gekk meira að segja svo langt að gefa systrum mínum heil 10 stykki af naglalökkum úr einkasafni mínu. Mikið sem ég var stolt af sjálfri mér.
Svo kom Brazil by OPI í verslanir. Ég vissi að ég hreinlega yrði að eignast Liquid Sand lökkin og það  ekki seinna en núna. Ég greip því tækifærið þegar við mamma vorum staddar í Smáralind um daginn. Síminn hennar hringdi og ég áttaði mig strax á því að símtalið myndi taka góðan tíma. Ég sá mér því leik á borði og hentist á ljóshraða inn í Lyfju og greip með mér kassann góða. Þetta hafðist næstum því. Mamma greip mig glóðvolga þar sem ég stóð í röðinni við kassann og var að rétta út kortið. 
En út gekk ég með lökkin þó ég hefði kosið að komast upp með þetta óséð.
Ekki gat ég svo sleppt því að kaupa hinn mini pakkann frá OPI. Þetta er sett. Það er nánast bara skylda að eiga þau öll. 


Ég sé svo sannarlega ekki eftir kaupunum enda eru lökkin hver öðru fallegri. Bjartir litil og pastel tónar virðast ætla að tröllríða öllu í naglatísku sumarsins og það er ég mjög ánægð með. OPI hitti svo sannarlega í mark með sumarlínu sinni í ár og ég er nokkuð viss um að ég verði að fjárfesta í stærri týpurnar af mínum uppáhaldslökkum svo ég verði ekki orðin uppiskroppa þegar sumarið lætur loksins sjá sig. 
Af þeim 8 lökkum sem ég á eru þessi 3 í mestu eftirlæti: Kiss Me I´m Brazilian - Where Did Suzi´s Man-go - You´re So Flippy Floppy.
Fullkomnir sumarlitir.




Önnur snyrtivörumerki virðast vera á sömu hillu og ég býð spennt eftir því að geta fjárfest í fleiri fallegum sumarlitum. 



Friday, February 28, 2014

Hár&fár

Ég hef alla mína tíð verið með frekar sítt hár. Samhliða því hefur fylgt mér mikill ótti við það að klippa á mér hárið, það þarf ekki nema að nefna klippingu og ég er farin að tárast. Ég er nefninlega haldin þeirri kenningu að ég sé ekki með höfuðlagið í það að vera stuttklippt og væri því ekkert annað en ljót með hár sem nær ekki langleiðina niður á rass.
Mér er sérlega minnistætt þegar ég lét eitt sinn klippa 15 cm af hárinu. Ég grenjaði eins og stunginn grís. Mamma hló og ég neitaði að tala við hana í dágóðan tíma. 
Ástandið á heimilinu var því rafmagnað þegar ég tilkynnti henni í gær að ég væri á leið í klippingu. 


Það var þó ekki tekið út með sældinni að vera með allt þetta hár. Það gerðist reglulega að ég lokaði bílhurðinni á hárið á mér, sem er ekki gott fyrir hársára. Einnig eyddi ég löngum tíma í það að toga hárið útúr ermunum eftir að ég var búin að klæða mig í peysu eða jakka. Ég tala nú ekki um hættuna sem fylgir því að fara út úr húsi með allt þetta hár í miklum vindi og sjá ekki útúr augunum. 
Það þarf svo varla að minnast á þann viðbjóð þegar hárið festist undir handakrikanum. Ég geri allavega sterklega ráð fyrir því að ég sé ekki sú eina sem glímt hefur við slæma fylgifiska síða hársins. 


Þetta gerðist svo í morgun þegar ég greiddi í gegnum ljónahárið. Burstinn þoldi augljóslega ekki álagið lengur. Ég tók þessu sem örlögin væru að segja mér eitthvað enda átti ég pantaðan tíma í klippingu klukkustund síðar. 


Af fóru heilir 20 cm og ég hef sjaldan verið jafn ánægð. Allavega enn um sinn. Ég leyfi ykkur að fylgjast með hvort handakrika vandamálið verði enn til staðar eftir breytinguna.

Góða helgi!



Wednesday, February 19, 2014

Föndurkvöld

Okkur systrum var boðið á föndurkvöld í gærkvöldi þar sem við lærðum að búa til fallegar seríur.
Við erum reyndar hvorugar þekktar fyrir það að vera sérlega handlagnar systur. Mér er enn minnistætt þegar ég var látin vinna sama handavinnuverkefni og krakkar í 4. bekk þegar ég var komin á efsta stig í grunnskóla. 
Seríugerðin er hinsvegar fremur einföld og ætti að vera á allra færi að framkvæma. Við vorum að sjálfsögðu líka með frábæran kennara sem sýndi okkur réttu handtökin.

Nývafðir hnyklar tilbúnir í verkið.


Erfiðasta verkið var án alls vafa að blása upp vatnsblöðrurnar sem nota þurfti í föndrið. 10 stykki á mann voru það. Smá pása er nauðsynleg eftir svoleiðis átök, enda flestir orðnir fremur loftlausir. 

Frekar mikill subbuskapur fylgir þessu ágæta föndri svo við færðum okkur inn í bílskúr til þess að leggja lokahönd á seríurnar.



Svo þarf að bíða í sólarhring meðan límið þornar svo hægt sé að sprengja blöðrurnar og troða seríu inn í kúlurnar.


Svona koma seríurnar svo til með að líta út þegar þær eru tilbúnar. Ég er ótrúlega spennt að fá föndrið í hendurnar svo ég geti fundið góðan stað fyrir seríuna mína. Auðvelt og skemmtilegt föndur sem kemur ótrúlega fallega út.

Saturday, February 15, 2014

Nýjung í snyrtiveskinu


Í gær eignaðist ég nýjan eyeliner sem ég var lengi búin að dást að úr fjarlægð. Ég þoldi svo ekki við lengur í gærmorgun og gerði mér sérferð í Smáralind til þess að festa kaup á þessari nauðsyn. Eyelinerinn er til í nokkrum litum fallegum litum, minn ber nafnið Choco Lux.


Ég er bæði búin að prufa eyelinerinn einan og sér og með svörtum, blautum eyeliner eins og sést hér á myndinni. Liturinn finnst mér alveg fullkominn og hann hentar mér og mínum augum mjög vel. Hann verður sko klárlega mikið notaður.


Meðleigjandinn kom að mér þar sem ég var niðursokkin í sjálfsmyndatöku inni í stofu. Það var bæði vandræðalegt og nauðsynlegt augnablik í okkar sambúð. Mér finnst ég loksins geta verið ég sjálf. 
Það er nú bara ekki annað hægt en að smella einni, eða tuttugu myndum, af sér þegar maður prufar nýja snyrtivöru.







Thursday, February 13, 2014