Pages

Friday, February 28, 2014

Hár&fár

Ég hef alla mína tíð verið með frekar sítt hár. Samhliða því hefur fylgt mér mikill ótti við það að klippa á mér hárið, það þarf ekki nema að nefna klippingu og ég er farin að tárast. Ég er nefninlega haldin þeirri kenningu að ég sé ekki með höfuðlagið í það að vera stuttklippt og væri því ekkert annað en ljót með hár sem nær ekki langleiðina niður á rass.
Mér er sérlega minnistætt þegar ég lét eitt sinn klippa 15 cm af hárinu. Ég grenjaði eins og stunginn grís. Mamma hló og ég neitaði að tala við hana í dágóðan tíma. 
Ástandið á heimilinu var því rafmagnað þegar ég tilkynnti henni í gær að ég væri á leið í klippingu. 


Það var þó ekki tekið út með sældinni að vera með allt þetta hár. Það gerðist reglulega að ég lokaði bílhurðinni á hárið á mér, sem er ekki gott fyrir hársára. Einnig eyddi ég löngum tíma í það að toga hárið útúr ermunum eftir að ég var búin að klæða mig í peysu eða jakka. Ég tala nú ekki um hættuna sem fylgir því að fara út úr húsi með allt þetta hár í miklum vindi og sjá ekki útúr augunum. 
Það þarf svo varla að minnast á þann viðbjóð þegar hárið festist undir handakrikanum. Ég geri allavega sterklega ráð fyrir því að ég sé ekki sú eina sem glímt hefur við slæma fylgifiska síða hársins. 


Þetta gerðist svo í morgun þegar ég greiddi í gegnum ljónahárið. Burstinn þoldi augljóslega ekki álagið lengur. Ég tók þessu sem örlögin væru að segja mér eitthvað enda átti ég pantaðan tíma í klippingu klukkustund síðar. 


Af fóru heilir 20 cm og ég hef sjaldan verið jafn ánægð. Allavega enn um sinn. Ég leyfi ykkur að fylgjast með hvort handakrika vandamálið verði enn til staðar eftir breytinguna.

Góða helgi!



Wednesday, February 19, 2014

Föndurkvöld

Okkur systrum var boðið á föndurkvöld í gærkvöldi þar sem við lærðum að búa til fallegar seríur.
Við erum reyndar hvorugar þekktar fyrir það að vera sérlega handlagnar systur. Mér er enn minnistætt þegar ég var látin vinna sama handavinnuverkefni og krakkar í 4. bekk þegar ég var komin á efsta stig í grunnskóla. 
Seríugerðin er hinsvegar fremur einföld og ætti að vera á allra færi að framkvæma. Við vorum að sjálfsögðu líka með frábæran kennara sem sýndi okkur réttu handtökin.

Nývafðir hnyklar tilbúnir í verkið.


Erfiðasta verkið var án alls vafa að blása upp vatnsblöðrurnar sem nota þurfti í föndrið. 10 stykki á mann voru það. Smá pása er nauðsynleg eftir svoleiðis átök, enda flestir orðnir fremur loftlausir. 

Frekar mikill subbuskapur fylgir þessu ágæta föndri svo við færðum okkur inn í bílskúr til þess að leggja lokahönd á seríurnar.



Svo þarf að bíða í sólarhring meðan límið þornar svo hægt sé að sprengja blöðrurnar og troða seríu inn í kúlurnar.


Svona koma seríurnar svo til með að líta út þegar þær eru tilbúnar. Ég er ótrúlega spennt að fá föndrið í hendurnar svo ég geti fundið góðan stað fyrir seríuna mína. Auðvelt og skemmtilegt föndur sem kemur ótrúlega fallega út.

Saturday, February 15, 2014

Nýjung í snyrtiveskinu


Í gær eignaðist ég nýjan eyeliner sem ég var lengi búin að dást að úr fjarlægð. Ég þoldi svo ekki við lengur í gærmorgun og gerði mér sérferð í Smáralind til þess að festa kaup á þessari nauðsyn. Eyelinerinn er til í nokkrum litum fallegum litum, minn ber nafnið Choco Lux.


Ég er bæði búin að prufa eyelinerinn einan og sér og með svörtum, blautum eyeliner eins og sést hér á myndinni. Liturinn finnst mér alveg fullkominn og hann hentar mér og mínum augum mjög vel. Hann verður sko klárlega mikið notaður.


Meðleigjandinn kom að mér þar sem ég var niðursokkin í sjálfsmyndatöku inni í stofu. Það var bæði vandræðalegt og nauðsynlegt augnablik í okkar sambúð. Mér finnst ég loksins geta verið ég sjálf. 
Það er nú bara ekki annað hægt en að smella einni, eða tuttugu myndum, af sér þegar maður prufar nýja snyrtivöru.







Thursday, February 13, 2014

Wednesday, February 12, 2014

Lunch beat UN Women


Föstudaginn 14. febrúar næstkomandi stendur UN Women í samstarfi við Lunch Beat og Sónar fyrir Milljarður Rís. Markmiðið er að fá 3000 manns um allt land til þess að dansa í klukkutíma fyrir mannréttindum kvenna. Frítt verður inn á viðburðinn sem hefst klukkan 12 á hádegi í Hörpunni.
Mér finnst þetta frábær og skemmtilegur viðburður og ekki skemmir fyrir að hann er fyrir góðan málstað sem nauðsynlegt er að vekja athygli á. 
Ég ætla allavega að mæta í Hörpuna og dansa mig inn í helgina, hvar verður þú?

Yfir 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert.

Helsta dánarorsök evrópskra kvenna á aldrinum 16-44 ára er heimilisofbeldi.

Konum er nauðgað á 26 sekúndna fresti í Suður Afríku.

Í Brasilíu deyja 10 konur á hverjum degi, eingöngu vegna heimilisofbeldis.


Menn ættu nú ekki að þurfa að hugsa sig tvisvar um eftir að hafa lesið þessa punkta. Mætum, styðjum gott málefni og skemmtum okkur hrikalega vel.
Sjáumst í Hörpu!

HÉR má finna nánari upplýsingar um viðburðinn fyrir áhugasama.

Tuesday, February 11, 2014

Þátta árátta

Ég er ein af þeim sem hefur einstaklega gaman af því að horfa á hina ýmsu þætti. Einstaka sinnum læðist ein og ein kvikmynd inn á milli en oftast eru það þættirnir sem eiga hug minn allan. Kannski meira en góðu hófi gegnir. Ég veit ekki hvort ég er sú eina en ég eyði sífellt meiri tíma í það að leita mér  að spennandi þáttum til að bæta við þó þéttskipaða dagskránna.

Þið megið endilega benda mér á þætti sem koma út á auðu dögunum. Það má alltaf á sig blómum bæta.

Ég hef þó tamið með mér þann ósið að ég horfi sjaldnast á þættina þó þeir séu í gangi í tölvunni. Ég er orðin nokkuð sannfærð um að ég sé haldin athyglisbrest af einhverju tagi þar sem ég get aldrei horft á þátt án þess að hafa eitthvað annað fyrir stafni á meðan. Oftar en ekki naglalakka ég mig. Stundum leysi ég Sudoku þrautir eins og ég fái borgað fyrir það. Ætli næsta mál á dagskrá sé ekki að læra að prjóna. Hverskonar sauma og prjónaskapur hefur þó alltaf vafist fyrir mér en ég hlýt að geta googlað þetta.


Jújú, ég á það þó til að líta upp á tölvuskjáinn til þess að sjá hvað er að gerast. Svona á milli þess sem ég brýt heilann yfir stærðfræðiþrautum. Mínir allra uppáhalds þættir eru án efa Shameless með þeim Emmy Rossum og William H. Macy í aðalhlutverkum. Svartur húmor með dass að drama. Klikkar ekki í mínum bókum. Hver er ykkar uppáhalds þáttur?


Saturday, February 8, 2014

Lúxusvandamál !


Ég hef átt bíl, sama bíl síðan að ég fékk bílprófið, eða meira að segja áður en ég fékk bílprófið... því ég þorði ekki að taka það strax ! ... Bílinn hefur oftar en ekki látið á sér standa og ég veit ekki hversu mörgum krónum ég hef eytt í viðgerðir á honum. En þó svo að ég bölvi því í hvert skipti sem eitthvað sé að þá get ég ekki án hans verið !

Í gær tók bíllinn minn uppá því að bila, bara sí svona .. nú situr hann í bílastæðinu og á sér enga von, og það sama má segja um mig... ég er gjörsamlega lömuð án hans. Þetta er alveg ótrúlegt lúxusvandamál og setur helgarplönin alveg úr skorðum, að komast á milli staða breyttist á svipstundu í að vera ósköp einfaldur hlutur í einn agalega flókinn (hver ætli geti skutlað mér...ætti ég að læra á strætó...ætli ég geti fengið far hjá þessum.... hvað kostar að taka taxa...á einhver hjól til að lána mér....nei ekki í kjól á hjól....osfrv) 


Það sem ég er búin að mikla þetta bílaleysi fyrir mér og vorkenna mér agalega að vera án hans. Málið er að ég er alltof góðu vön, ég meina ég hef lappir og "the ability to walk", það er strætóskýli rétt hjá heimilinu mínu, ég á hlý föt til útiveru, ég á klink í strætó, ég bý á Íslandi en ekki á Indlandi og get þess vegna verið nokkuð viss um að lifa af strætóferð .... það er í raun ekkert sem stendur í vegi fyrir mér... 

...en gvuð hvað ég hlakka samt til að fá bílinn minn aftur :) 


-gm