Pages

Friday, October 25, 2013

Freddukökur

Freydís Selma, vinkona mín, er algjör snillingur í eldhúsinu bæði þegar það kemur að matargerð og bakstri. Hún er oft kölluð Martha Stewart vinahópsins fyrir þessa hæfileika sína. Freydís býr þó við þá ólukku að eiga ekki bakaraofn og fær því stundum að baka heima hjá okkur vinkonum sínum, sem við erum ekki beint að hata! Hún kom því í heimsókn til mín um daginn og bakaði þær bestu smákökur sem ég hef nokkurntímann smakkað, með hnetusmjöri og mjúkri karamellu í miðjunni! Hún var svo góð að leyfa mér að birta uppskriftina, sem hún útfærði að sjálfsögðu sjálf, hér á blogginu. Njótið!




Hráefni:

2 ½ bolli kornax hveiti
1 tsk matarsódi
2 tsk cream of tartar
½ tsk kanill
½ tsk maldon salt (Saltverk sjávarsalt)
230 g ósaltað smjör, mjúkt
½ bolli sykur
1 ¼ bolli púðursykur, ekki þjappaður (má jafnvel minnka)
1 stórt egg (2 lítil)
1 eggjarauða
1 tsk vanilludropar (vanilla extract enn betra)
2 msk hnetusmjör
1 msk rjómi
1/2 bolli karamellukoddar, skornir í ferninga eða jafnvel minna (fást t.d. í nammibarnum í Hagkaup, þetta eru mjúkar karamellur)

Til að rúlla kökunum upp úr:
¼ bolli sykur
2 tsk kanill 

Sjávarsalt, til að strá á toppinn á smákökunum.
Aðferð:
Smjörið sett í pott, brætt fullkomlega og látið dökkna örlítið en athuga verður að það brennur mjög snögglega. Smjörið fjarlægt af hellunni og látið kólna að stofuhita.
Í stóra skál er hveiti, cream of tartar, kanill, salt og matarsódi týndur til á meðan smjörblandan kólnar.
Við sambýliskonur eigum ekki hrærivél svo við urðum að styðjast við handþeytara sem var hreint ekki verra.

Í hrærivélarskál, er smjöri og sykri blandað vel saman uns mjúkt. Þá er egginu og eggjarauðunni bætt við, svo og vanillunni, hnetusmjörinu og rjómaslettunni. 
Þurrefnunum er þá bætt varlega við, varast skal að hræra of mikið. Kúla er þá mynduð úr deiginu og geymd inni í ískáp í a.m.k. 30 mínútur (deigið geymist vel í kæli yfir nótt). 

Þessi badboy fór svo í kæli í ca. klukkustund.

Þegar komið er að því að baka kökurnar er ofninn hitaður að 175-180°C. Um 2 msk af deigi þarf í eina köku sem er rúllað í kúlu. Kúlan er síðan flött út með lófanum og 1-2 karamellubitar settir á deigbútin, síðan er kúla mynduð utan um karamellurnar.

Það má að sjálfsögðu setja minna af karamellu, en það er bara ekki eins gott.

Þegar allt deigið er komið í kökur er þeim velt upp úr kanilsykurblöndunni, raðað á bakstursplötu og örlitlu sjávarsalti stráð yfir kökurnar. Bakað í 8 – 10 mínútur eða þar til brúnirnar eru örlítið gylltar en miðjan enn mjúk. Kökurnar látnar standa í 2-3 mínútur og síðna fjarlægðar til að kólna.

Fyrir þá sem eru ekki hrifnir af smákökum þá er deigið líka mjög bragðgott eitt og sér. 

Ég mæli að sjálfsögðu með því að allir sem ætla að baka þessar kökur án þess að vera búnir að taka masterinn í bakstri hringi fyrst í Freydísi og biðji hana um að mæta á svæðið. Við sambýliskonur ætluðum nefninlega að vera agalega sniðugar og baka þær sjálfar en þar sem við erum ekki búnar með masterinn tók græðgin yfirhöndina og kökurnar urðu of stórar hjá okkur. 



Svo ef þið viljið ekki að kökurnar líti svona út þá mæli ég með því að hafa þær aðeins minni eða raða færri kökum á plötuna. Þær voru þó ekki verri þrátt fyrir þessi smávægilegu mistök. Kökurnar eru lang bestar nýbakaðar því þá er karamellan í miðjunni svo ótrúlega mjúk og góð.
Ég mæli eindregið með því að fólk skelli í þessar kökur fyrir helgina eða bara til að eiga smá í frysti. 



Gleðilega helgi!








1 comment: